Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar eða Kadeco er þróunarfélag sérhæft í fasteignaþróun, verkefnum sem auka samkeppnishæfni fyrirtækja á Reykjanesi og verkefnum sem efla frumkvöðlamenningu á Reykjanesi.

Þróunarfélagið var stofnað árið 2006 í kjölfar þess að bandaríski herinn yfirgaf varnarsvæði sitt eftir 60 ára veru. Félagið var stofnað til að koma varnarsvæðinu, sem nú heitir Ásbrú, í borgaraleg not og er það í eigu fjármálaráðuneytisins.

Markmið og tilgangur Kadeco er að leiða þróun og umbreytingu á Ásbrú. Í því felst meðal annars nauðsynleg undirbúningsvinna, svo sem úttekt á svæði og mannvirkjum ásamt þróunar- og vaxtarmöguleikum þess í samráði við þá aðila sem hafa hagsmuna að gæta. Þá annast félagið, á grundvelli þjónustusamnings við ríkið, rekstur, umsjón og umsýslu tiltekinna eigna íslenska ríkisins á svæðinu, þar með talið umsjón með sölu og útleigu eigna, hreinsun svæða, niðurrif mannvirkja og önnur skyld verkefni. Félagið vinnur einnig verkefni sem tengjast úttektum, þróun og umbreytingu á svæðinu og hefur umsjón með markaðssetningu og kynningu á Ásbrú.

Hægt er að hafa samband við Kadeco með því að senda póst á netfangið fyrirspurnir@kadeco.is eða með því að hringja á skrifstofutíma í síma: 425-2100