-->

Eldri fréttir

 • 2015
 • 2014
 • 2013
 • 2012
 • 2011
 • 2010
 • 2009
 • Heklan styður við atvinnuþróun og nýsköpun á Suðurnesjum

  17 mar. 2012

   

  Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja hefur tekið yfir rekstur á Eldey frumkvöðlasetri en þar hafa ráðgjafar hennar jafnframt aðsetur.

  Heklan hóf formlega starfsemi sl. haust en starfsmenn eru Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri, María Lóa Friðjónsdóttir, Dagný Gísladóttir og Björk Guðjónsdóttir.


  Heklan styður við atvinnuþróun og nýsköpun á Suðurnesjum í samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki, samtök, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila og skipa bæjarstjórar sveitarfélaganna á Suðurnesjum stjórn auk fulltrúa frá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi.


  Verkefni félagsins eru fjölbreytt, á sviði atvinnu og byggðaþróunar auk verkefna á sviði nýsköpunar. Þar má nefna Vaxtarsamning Suðurnesja og Menningarsamningur Suðurnesja, stuðning við frumkvöðla og starfandi fyrirtæki í nýsköpun, markaðssetningu svæðisins sem og þróunarverkefni og stefnumótun fyrir svæðið í heild sinni.


  Áhersla er lögð á að Eldey frumkvöðlasetur verði one stop shop fyrir nýsköpun og atvinnuþróun á Suðurnesjum og fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á stuðningi og ráðgjöf að halda.


  Eldey frumkvöðlasetur
  Í Eldey er eitt stærsta og glæsilegasta frumkvöðlasetur landsins, sem þjónar frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum, auk starfandi fyrirtækja sem vilja efla sig með nýsköpun og vöruþróun. Eldey býður aðstöðu fyrir frumkvöðla til að stíga sín fyrstu skref, þróa viðskiptahugmyndir sínar og koma sprotafyrirtækjum á legg. Húsnæðið er í heild 3.300 fermetrar og skiptist það í kennslu- og fyrirlestrarrými, fundaraðstöðu, og skrifstofu- og smiðjuaðstöðu fyrir frumkvöðlafyrirtæki.


  Stuðningur og þjónusta
  Í Eldey býður frumkvöðlasetrið upp á vinnuaðstöðu á einstakega hagkvæmu verði fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Við fögnum einnig umsóknum um vinnuaðstöðu frá fólki sem hefur reynslu úr viðskiptaheiminum sem vill vinna innan um frumkvöðla og sprota, byggja upp tengsl við þá og eru tilbúin til að veita viðskiptavinum okkar stuðning og ráðgjöf.


  Frumkvöðlar geta leigt skrifborð og læsta hirslu í opnu vinnurými en einnig er boðið upp á lokuð skrifstofurými með skrifborði og hillum. Frír internetaðgangur er í húsinu.


  Í Eldey eru smiðjurými af ýmsum stærðum til leigu sem hafa verið mjög vinsæl og eru nú sjö sprotafyrirtæki með aðsetur þar og fjögur eru á biðlista eftir 50 – 100 fm smiðjum. Stærstu smiðjurnar eru frá 160 fm – 270 fm.


  Leigjendur í Eldey hafa aðgang að fundarherbergjum og hugarflæðisrými sem einnig er hægt að nota sem fyrirlestrarsal. Einnig hafa þeir aðgang að ráðgjöf er snýr að framþróun nýsköpunarhugmyndar, gerð viðskiptaáætlana og styrkumsókna svo eitthvað sé nefnt. Í húsinu er boðið upp á fjölbreytta fræðsludagskrá og tengslaviðburði.


  Frumkvöðlar hafa jafnframt stuðning af öðrum frumkvöðlum í frumkvöðlasetrinu en það getur verið gott að fara með hugmyndina frá eldhúsborðinu heima í skapandi umhverfi þar sem hægt er að byggja upp öflugt tengslanet.


  Er Eldey eitthvað fyrir þig?
  Hafðu samband á eldey@heklan.is í síma 420 3288 eða líttu við í heimsókn. Það er heitt á könnunni.


  Opinn kynningarfundur

  Þriðjudaginn 20. mars kl. 9:30 – 11:00 verður opinn kynningarfundur í Eldey fyrir frumkvöðla á Suðurnesjum. Markmiðið er að hitta sem flesta sem vinna að nýsköpun á svæðinu, heyra þeirra þarfir og kynna þá þjónustu sem Heklan býður sem og húsnæðið í Eldey og námskeið sem fyrirhuguð eru. Við hvetjum sem flesta til að mæta – kaffi og með því.

  Viðburðir
  21 mars 2014
  Af stað - Matti Ósvald Stefánsson

  Af stað – Matti Ósvald Stefánsson Farið verður í þau lykilskref sem gott er að hafa í huga áður e...

  29 maí 2014
  Opinn dagur á Ásbrú

  Opni Dagurinn 2014 verður haldinn fimmtudaginn 29. maí nk. sem er uppstigningardagur. Þessa dagana ...

  07 júní 2014
  Söguganga um Ásbrú í Jarðvangsviku

  Morgunganga um gamla varnarliðssvæðið að Ásbrú og heimsókn í Íbúð Kanans - lífið á vellinum.

  03 febrúar 2015
  Frá hugmynd til framkvæmdar

  Hádegiserindi í Eldey